IS

Heilög þrenning

Heilög þrenning, Þrenningin eða Þrenningarkenningin er ein mikilvægasta hugmyndin í hinni kristnutrú samkvæmt flestum kirkjudeildum og felur í sér Föðurinn, Soninn og heilagan anda. Kjarni þessarar kenningar er að Guð er samfélag föður og sonar og heilags anda í einum guðdómi. Kenningin óx fram sem tilraun til að samræma og útskýra frásögur Gamla og Nýja testamentanna um Guð og skapa samræmda mynd af opinberunum Hans.

Skjöldur þrenningarinnar eða Scutum Fidei, skýringarmynd kaþólsku kirkjunnar af heilagri þrenningu. Hér er lögð áhersla á að Faðirinn (Pater), Sonurinn (Filus) og Heilagur andi (Spiritus) eru (est) Guð (Deus), en að til dæmis Faðirinn er ekki (non est) Sonurinn.

Þrátt fyrir mikilvægi kenningarinnar fyrir allar helstu kirkjudeildirnar hefur hún valdið miklum deilum guðfræðinga og á þátt í klofningi kirkjudeilda sérlega á fyrstu öldum kristinnar kirkju og nokkrar kirkjur afneita kenningunni.

. . . Heilög þrenning . . .

Þrenningarhugtakið sem slíkt er ekki að finna í Biblíunni, hvorki í Gamla eða Nýja testamentinu. Það var kirkjufaðirinn Tertullianus (um 160—225) frá Karþagó sem um ár 200 setti fram grundvallarsetningu þrenningarkenningarinnar: „Guð er einn að eðli og þrjár persónur“. Hugtakið Þrenningin var fyrst notað af Þeophílusi frá Antiokkíu um ár 180[1] og varð afgerandi við framvöxt kaþólsku kirkjunnar og rétttrúnaðarkirkjunnar, til dæmis í deilunum við aríanista, nestoríana og það sem varð austræna rétttrúnaðarkirkjan. Aríus hélt því fram að „Það var sá tími er sonurinn var ekki“:

Þess vegna eru þrjár verur (hyopstaser), Faðirinn, Sonurinn og Heilagur andi. Og Guð, sem er upphaf allra hluta, er sá eini án upphafs, en Sonurinn, sem fæddist utan tímans af Föðurnum var ekki áður en hann var fæddur og fékk einungis líf gegnum Föðurinn einan. (haft eftir Aríusi í gagnriti Epiphaniusar frá Salamis[2].

Í Aþanasíusarjátningunni (sem samin var um ár 500) sem sköpuð var gegn Aríusarsinnum segir hins vegar:

10 Faðirinn er eilífur, sonurinn er eilífur, heilagur andi er eilífur 11 og samt sem áður eru ekki þrír eilífir, heldur einn eilífur 12 eins og þeir eru ekki þrír óskapaðir og ekki þrír ómælanlegir, heldur einn óskapaður og einn ómælanlegur.

og síðan:

21 Sonurinn er ekki gerður og ekki skapaður, heldur fæddur af föðurnum einum. [3]

Þrenningarkenningin skapaðist undir miklum áhrifum frá nýplatonisma ekki síst hugmynda þeirra um heim frummyndanna og hinn skynjanlega heim sem fullkomlega aðskilda.

Þessar deilur urðu aðalmálefni kirkjuþingsins í Níkeu 325 og Níkeujátningin frá 381 er sett fram einkum til undirstrika mikilvægi þrenningarkenningarinnar.

. . . Heilög þrenning . . .

This article is issued from web site Wikipedia. The original article may be a bit shortened or modified. Some links may have been modified. The text is licensed under “Creative Commons – Attribution – Sharealike” [1] and some of the text can also be licensed under the terms of the “GNU Free Documentation License” [2]. Additional terms may apply for the media files. By using this site, you agree to our Legal pages . Web links: [1] [2]

. . . Heilög þrenning . . .

Back To Top