IS

Rauðúlfs þáttur

Rauðúlfs þáttur er stutt táknsaga varðveitt í nokkrum íslenskum miðaldahandritum. Höfundur er óþekktur en virðist hafa verið kirkjunnar maður, uppi á 12. eða 13. öld. Sagan segir frá heimsókn Ólafs helga til Rauðúlfs (einnig nefndur Rauður og Úlfur) bónda í Eystridölum í Noregi, skemmtun þeirra um kvöldið og næturdvöl Ólafs í kringlóttri svefnskemmu sem var fagurlega skreytt og snerist að auki. Einnig segir þátturinn frá sérkennilegum draumi konungs og ráðningu Rauðúlfs á honum. Í sumum handritum er þátturinn felldur inn í Ólafs sögu helga hina meiri[1].

. . . Rauðúlfs þáttur . . .

Þátturinn segir frá ferð Ólafs helga ásamt fylgdarliði, þ.á m. drottningu og biskupi í Eystridali (nú Österdalen) sem um þær mundir var frekar afskekktur staður í Noregi, nærri landamærum Svíþjóðar. Hann kemur til Rauðúlfs og fjölskyldu hans sem höfðu verið sökuð um nautgripaþjófnað. Rauðúlfur og synir hans tveir, Dagur og Sigurður, reynast spakir að viti og vel að sér í stjörnufræði, tímatali, fýsíógnómíu og fleiru. Í veislu um kvöldið skemmta menn sér við að lýsa hæfileikum sínum og metast um þá. Að því loknu er konungi og fylgdarliði hans vísað til nýbyggðrar svefnskemmu þar sem þeim er ætlað að sofa um nóttina.

Grunnmynd svefnskemmunnar.
Hornstafur rekkjunnar og þrískipt kerti.
Samhengi hússins við draumsýn Ólafs.

Rými og skreytingum svefnskemmunnar er lýst ítarlega. Skemman var kringlótt með fjórum útdyrum og var jafnlangt milli þeirra allra. Hvolfþak var á skemmunni og var því haldið uppi af tuttugu stoðum í hring. Húsinu var skipt í fjórðunga (líklega ber að skilja það svo að gangar hafi legið inn að miðju frá útdyrunum fjórum). Húsinu var einnig skipt í þrennt: Í miðjunni var kringlóttur pallur með þrepum, en rýminu umhverfis hann var skipt í tvennt af girðingu sem lá milli stoðanna tuttugu. Á miðpallinum var stór rekkja sem Ólafi var ætlað að sofa í. Rúmstólparnir voru skreyttir gylltum koparkúlum og út úr stólpunum voru járnslár með þrískiptum kertum. Fylgdarliði konungs var skipað niður svo: Drottning og þjónustumeyjar hennar voru í rýminu á vinstri hönd konungi, biskup og klerkar voru konungi á hægri hönd, þrír lendir menn, nafngreindir, voru við höfðalag konungs og aðrir þrír við fótagafl hans. Tuttugu menn eru sagðir vera samanlagt í hverju hólfi innri hringsins (80 alls) en fjörtíu í ytri hringnum.

Þar sem Ólafur konungur lá í rekkju sinni sá hann að hvolfþakið var skreytt myndum sem sýndu allt sköpunarverkið, með guð í miðju, í veldishring, en út frá honum englasveitirnar, himintungl, ský og vindar, þvínæst gróður og dýr og yst og neðst sjór og sævarbúar. Ytra þakið (utan við súlurnar) var skreytt myndum af afrekum fornkappa. Einnig virtist konungi húsið snúast.

. . . Rauðúlfs þáttur . . .

This article is issued from web site Wikipedia. The original article may be a bit shortened or modified. Some links may have been modified. The text is licensed under “Creative Commons – Attribution – Sharealike” [1] and some of the text can also be licensed under the terms of the “GNU Free Documentation License” [2]. Additional terms may apply for the media files. By using this site, you agree to our Legal pages . Web links: [1] [2]

. . . Rauðúlfs þáttur . . .

Back To Top